The museums
- Minjasafn Austurlands
- Donegal County Museum
- Museum Nord
Share / Add

Handverk
Ullarvinnsla var mikilvæg forsenda norskrar útgerðar, einnar mikilvægustu útflutningsgreinar landsins. Sjómenn fóru á langar vertíðir fjarri heimabyggð og þurftu að taka með sér nægan mat og föt. Mestur hluti fatnaðarins var heimatilbúinn þar til eftir stríð. Vinnan við fatagerðina þurfti að samræmast vinnu karlmannanna og búskaparstörfunum. Á haustin og fyrir jól var spunnið garn, prjónaðir vettlingar og sokkar og saumuð þau föt sem karlmennirnir þurftu að taka með sér. Á síðustu öld gat fullorðinn maður haft með sér eftirfarandi klæðnað á vertíðina í Lofoten: Fimm-sex ullarskyrtur og fimm-sex ullarbuxur, þrjár nátttreyjur úr ull, fimm sokkapör, tvenna stóra leista í sjóstígvél, tvenna litla leista í sjóstígvél, hálsbindi, gott vesti, veiðivesti, vaðmálstreyju og -buxur, einn utanyfirjakka, tvennar hversdagsbuxur úr vaðmáli, fimm pör af hvítum sjóvettlingum, eina sparivettlinga og bólerójakka auk sunnudagafata. Það segir sig sjálft að mikil vinna lá þarna að baki og oft voru fleiri en einn maður í fjölskyldunni sem þurfti að búa út. Það var því ekki að ástæðulausu að konurnar héldu upp á „jóladag kvenna" 2. febrúar með kaffistund þegar undirbúningnum fyrir þorskvertíðina í Lofoten var lokið.
Eftir að mennirnir voru farnir á sjóinn, sólin var aftur komin og dagarnir urðu bjartari og lengri, var vefstóllinn settur upp og ofið efni í föt næsta árs. Konurnar þurftu að leggja áherslu á það nauðsynlegasta, þ.e. það sem karlmennirnir þurftu að hafa með sér á bátinn og það var ekki lítið. Að spinna og vefa tók um það bil jafnlangan tíma og vertíðin í Lofoten. Oft var þessi handavinna unnin með öðru. „Stúlka sem ekki gat klárað þumal á sjóvettlingi á meðan byggsúpan sauð, hún var nú ekki til mikils," sagði fólk.
Eldri fiskimönnum fannst best að nota heimaspunnu og heimaprjónuðu fötin á sjónum og notuðu því lengi heimaofin ullarnærföt. Það leikur enginn vafi á því að ullarflíkurnar björguðu oft mannslífum. Þegar strákarnir voru orðnir nógu stórir til að fara á sjóinn, fengu þeir líka sína fyrstu ullartreyju. Konur og börn komust af með ullarblönduð föt.
Fatagerðin fylgdi ekki föstum forskriftum, heldur var það byggt á reynslu hvort útkoman yrði „passleg" og virkaði eins og til var ætlast. „Velgerður vettlingur á að líta út eins og lítil lúða," var sagt. Þekkingin var bæði yfirgripsmikil og ítarleg þar sem fólk vissi ekki aðeins hvernig átti að prjóna vettling heldur líka hvernig átti að fóðra kindurnar og klippa og flokka ullina. Ull í sjóvettling átti til dæmis að vera bæði mjúk og löng, svo að garnið yrði bæði sterkt og endingargott. Hún átti einnig að vera vel þæfð svo að vettlingarnir yrðu vatnsheldir, en þó ekki þæfð um of því þá hlupu þeir og urðu litlir og kaldir. Mismunandi veiðiverkfæri kröfðust líka mismunandi eiginleika af vettlingunum.
Konurnar bjuggu einnig til teppi úr ull. Þau voru notuð sem yfirbreiðsla, meðal annars í bátum og verbúðum. Slík bátateppi voru floskennd öðrum megin en hinum megin voru þau sleip og gjarnan mynstruð, röndótt eða köflótt. Í uppistöðuþráðinn var valið sleipt band úr yfirull, sem var með þéttum snúningi, ívafið var gjarnan úr ull af búk eða lærum og flosið í innra byrðinu var úr tiltölulega þykku garni með léttari snúningi og spunnið úr mýkri ull. Þannig notuðu konurnar alla kostina við ullina af „villisauðunum" í teppin, hin sleipa ytri hlið var vatnsheld en mjúk innri hliðin hélt hita á sjómanninum. Teppið var einangrandi en loftaði vel og var rakadrægt og slitsterkt. Í ofanálag var hægt að þvo það og það þoldi sjóvatn.
Á þriðja og fjórða áratugnum var algengt að keypt væru ósamsett ullarnærföt frá prjónastofum í heimahéruðum, sem voru með prjónavélar, og hlutarnir svo saumaðir saman heima. Vaðmál í utanyfirföt var oft ofið heima úr eigin ull en sent annað til þæfingar til að fá það þétt, mjúkt og vatnshelt. Sums staðar var voðin látin í steinfjöru og öldurnar látnar um að þæfa hana.
Ein algengustu ferðaföt fólks meðfram ströndinni voru sjójakkar, sem einnig voru kallaðir grájakkar, en þeir voru úr vaðmáli. Upp úr miðri 19. öld var smátt og smátt hætt að nota vaðmálsföt eftir því sem verslanir fóru að bjóða meira af tilbúnum flíkum. Það var þó ekki fyrr en á millistríðsárunum að algengt varð að vinnuföt karlmannanna væru mestmegnis búðarkeyptur fatnaður, svo sem Devold-treyjur og gallaföt en einnig vaðmálsbuxur og -treyjur.