The museums
- Minjasafn Austurlands
- Donegal County Museum
- Museum Nord
Share / Add

SAUÐFJÁRRÆKT
Íslenska sauðféð er líklegast að meginstofni ættað frá Noregi og hefur lítið blandast frá landnámi. Það er af norður-evrópska, hyrnda stuttrófukyninu og líkist mest norska stuttrófufénu.
Hvítur litur er algengastur en þó er talsvert um mislitt fé. Í íslenska fjárstofninum finnast bæði hyrnd dýr og kollótt, af báðum kynjum, auk þess sem ferhyrnt fé þekkist. Forystufé er sérstakt kyn sem þótti og þykir enn sérstaklega dýrmætt.
Á Íslandi var féð markað á eyrum og kind helguð með lögskráðu marki. Þessi aðferð til að helga sér eignarrétt var notuð á mun afgerandi hátt hér en í öðrum Evrópulöndum. Gott dæmi um þetta er að sjá í markaskránni sem hér er til sýnis.
Frá landnámi og langleiðina framundir aldamótin 1900 var sauðfjárrækt mikilvægasta atvinnugrein á Íslandi. Störf bændasamfélagsins helguðust af þörfum kindarinnar, á vorin var sauðburður, sumarið fór í slátt og heyskap, á haustin var slátrað og veturnir voru notaðir til tóvinnu. Maður og kind lifðu í nánu samfélagi hvort við annað, oft í mjög harðri lífsbaráttu.
Í dag er sauðfjárrækt enn mikilvægur hluti íslensks landbúnaðar þó að efnahagslegt vægi hennar sé minna en áður, enda samfélagið og atvinnugreinar þess orðin mun fjölbreyttari.
ULLIN
Ullarvörur, prjónles og vaðmál, voru um aldaraðir ein af mikilvægustu útflutningsafurðum Íslendinga. Auk þess var ullin undirstaðan í fatnaði þjóðarinnar. Má gera ráð fyrir því að um 5 kg af þveginni ull hafi þurft á ári til að klæða eina manneskju.
Verkin voru mörg. Það þurfti að rýja kindurnar, þvo ullina og þurrka, kemba hana og spinna. Þá fyrst var hægt að nota hana til að vefa úr og prjóna. Á 18. öld, í tengslum við Innréttingar Skúla Magnússonar urðu þó nokkrar tækniframfarir við tóvinnunna, rokkur leysti halasnælduna af, danskur vefstóll kom í stað kljásteinavefstaðs við vefnað og farið var að nota svo kallaða þelkamba í stað togkamba.
Gamlir kambar, nú kallaðir togkambar Kljásteinavefstaður
Mynd: Íslenskir þjóðhættir. Mynd: Íslenskir þjóðhættir.
Ull íslensku sauðkindarinnar er sérstök að því leyti að hún skipist í tvær gerðir; þel sem er einangrandi, óreglulega liðuð hár og tog, löng og slétt hár sem hrinda frá sér vatni.
Tungumálið bar þess vitni hve ullin var stór hluti í lífi fólks. Hér er dæmi um nokkur ullarorð: Reyfi, vorull, haustull, þel, tog, hærur, líntog, línhært tog, starhært tog, þelbólgin ull, hrísin ull, tása, kemba, fylling, upptíningur, ullarhnat, illhærur, undirkemba, garðaló og öfugsnoð.
VAÐMÁL OG VEFNAÐUR
Frá landnámi var hér stundaður vefnaður í kljásteinavefstöðum. Ýmsar gerðir af vaðmáli voru ofnar og var vaðmál helsta útflutningsafurð Íslendinga fram á 13. öld. Framleiðsla þess var kvenmannsverk en þegar danski vefstóllinn leysti kljásteinavefstaðinn af hólmi settust karlar einnig við vefinn. Um miðja 19. öld jókst verulega innflutningur á erlendu klæðaefni og leysti smám saman af hólmi heimaofna dúka. Þó var ennþá ofið á heimilum. Vefnaður var ein af helstu námsgreinum sem kenndar voru á húsmæðraskólum sem margir hverjir voru settir á stofn um og uppúr aldamótunum 1900.
PRJÓN
Sú tækni að prjóna barst líklegast til landsins á fyrri hluta 16. aldar með enskum, þýskum eða hollenskum kaupmönnum. Framleiðsla á prjónlesi tók fljótt við af vaðmálsgerð, því mun fljótlegra var að vinna úr ullinni. Tóvinna fór fram á veturna og átti vinnufært fólk að skila ákveðnu magni af prjónlesi á tilteknum tíma. Allir sem ,,vettlingi gátu valdið” prjónuðu, karlar, konur og börn, og t.d. áttu 8 ára börn að skila tvennum sjóvettlingum á viku. Áætlað hefur verið að á 18. öld hafi 11 þúsund manns, 22% þjóðarinnar, verið bundið við tóvinnu 7 mánuði á ári.
Mest var prjónað af sokkum og vettlingum og einnig eitthvað af peysum til útflutnings. Einnig var prjónað til eigin nota, má sem dæmi nefna íleppa í skinnskó, peysubrjóst og skotthúfur.