The museums
- Minjasafn Austurlands
- Donegal County Museum
- Museum Nord
Share / Add

Sauðkindin kom til Noregs á nýsteinöld og jarðrækt fylgdi fljótlega í kjölfarið. Merki um þetta hafa fundist m.a. í gröf, þar sem nú heitir Føre í Bø í Vesterål, en þar fengu hinir graflögðu með sér sauðakjöt til ferðarinnar yfir móðuna miklu. Þetta bendir til þess að litið hafi verið á sauðkindina sem góðan mat. Í fornleifum frá járnöld er einnig algengt að finna spunarokka í gröfum sem sýnir að byrjað var að nota ullina á þeim tíma.
Í meginatriðum er hægt að skipta sauðfé í Noregi í tvo stóra hópa eftir því hversu kynbætt það hefur verið eða hversu ólíkir sauðirnir eru upprunalegu sauðkindinni. „Léttu" kynin eru með stuttan hala eða dindil og hafa breyst minnst. Meðal þeirra eru gammel norsk steinaldersau (villisauður), hinn nokkuð breytti spælsau og pelssau. Sauðfé úr þessum hópum sýnir skynsamlega hegðun gagnvart rándýrum. Dýrin eru varari um sig, eftirtektarsamari og fljótari að flýja. Þau hópa sig betur saman og lömbin halda sig nálægt mæðrum sínum, en það minnkar stórlega líkurnar á að þau verði tekin af rándýrum. Stór hluti þessa fjár er hornóttur og hornin eru auðvitað góð varnarvopn. Þó þessi kyn hafi marga jákvæða eiginleika og hafi verið ræktuð nánast eingöngu fyrr á öldum, eru til margir aðrir stofnar sem eru mun fjölmennari í heildina. Því hljóta að hafa verið ókostir við frumstæða sauðféð sem urðu til þess að því fækkaði mjög upp úr miðri síðustu öld.
„Þungu" stofnarnir eru eins og nafnið gefur til kynna, þyngri, þ.e.a.s. hver einstaklingur er stærri, og þeir eiga í meiri erfiðleikum með burð. Norsk kvit sau, dala, steigar o.s.frv. hafa meiri sláturvigt og fitan er dreifðari í kjötinu. Á hinn bóginn er fitan á hinum létta spælsau að stórum hluta í kringum innyflin og þessa tólg er hægt að nota í tólgarkerti. Með kynbótunum hefur einnig kerfisbundið verið útrýmt þeim einstaklingum, sem eru með horn, og eru hinir þyngri stofnar því kollóttir.
Ull
Sauðagærur voru snemma notaðar í föt. Ull má skilgreina sem hár, sem hægt er að spinna, og getur komið frá sauðfé, angórukanínum og -geitum, hundum, lamadýrum, kameldýrum og moskuxum. En það er ull af sauðkindum sem er langmest unnið með í Noregi. Þegar sauðkindur voru tamdar voru þær nokkuð stutthærðar og gengu úr vetrarreyfinu á hverju ári. Þá var hægt að draga ullina af dýrunum. Stærsta breytingin kom með sauðaklippunum sem voru fundnar upp fyrir 3-4000 árum síðan. Ekki er nákvæmlega vitað hvenær byrjað var að vefa ull því veftæknin hefur verið þekkt lengi. Lín var ofið fyrir 9000 árum síðan í Tyrklandi en það var ekki fyrr en um það leyti sem bronsöldin gekk í garð, þ.e.a.s. á svipuðum tíma og sauðaklippurnar komu fram, að með vissu var byrjað að vefa ull í okkar heimshluta. Í fornleifum frá járnöld finnst mikið af lóðum úr kljásteinavefstólum. Ullin er mjög sérstakt efni sem er mjög einangrandi og heldur hita jafnvel þó hún sé blaut.
Þar sem ullin varð smátt og smátt mjög mikilvæg, voru þau dýr valin út og kynbætt sem voru með lengstu ullina og af mestu gæðum. Ein allra besta ullin, merino, var ræktuð á Spáni og Spánverjar héldu henni lengi innan sinna landamæra. Með tímanum var kynbótaefnið flutt yfir landamærin og blandað inn í aðra stofna. Ólíkt flestum þungu stofnunum hefur spælsau tvö hárlög; tiltölulega löng og gróf varnarhár yst, en stutta, mjúka og fínlega ull undir. Þetta þýðir að spælsau hefur ekki mikið af verðmætu ullinni, en sterk ytri ullin hefur þann kost að hægt er að nota hana í myndvefnað og teppi.
Þegar menn fóru að nota segl á báta u.þ.b. 600 e.Kr. kom í ljós að ull var hentugt efni þar sem ullarsegl eru létt og þorna fljótt. Stórt rásegl af Gaukstaðaskipinu hlýtur að hafa verið mjög dýrmætt þar sem í því lá gífurlega mikið af kindum, ull og vinnutíma í að spinna og vefa.
Líkt og jarðrækt, fiskveiði og veiði sjóspendýra var sauðkindin mikilvæg bæði fyrir Sama og Norðmenn þar sem hún gaf bæði mat og föt. Samarnir fórnuðu einnig sauðkindum á fórnarsteinum fram á 17. og 18. öld.
Á 19. öld var lögð meiri áhersla á að auka kjötframleiðsluna og því voru fluttar inn sauðkindur og ræktaðir nýir stofnar. Flest sauðfjárkyn í Noregi í dag hafa því verið kynbætt, en það eru þó enn 4-5 sauðfjárkyn sem hafa tvö mismunandi lög af ull. Eins og steinaldarsauðurinn hafa þessir stofnar stuttan hala en kynbættu sauðirnir hafa langan hala og aðeins miðlungsfínlega undirull.
Sauðkindin í menningu og stjórnmálum nútímans
Gamla norræna sauðfjárkynið, sem oft er kallað villisauðir, er aftur orðið vinsælt. En nú er rándýravandamálið orðið heitt pólitískt ágreiningsefni í Noregi og hafa þeir sem styðja friðun rándýra og fulltrúar sauðfjárbænda deilt hart. Árið 2008 fengu bændur í Nordland-fylki bætur fyrir 4030 sauði og lömb sem drepin voru af friðuðum rándýrum, eins og jarfa, gaupu og kóngserni.
Norsk yfirvöld styrkja einnig sauðfjárbændur til að sauðféð þeirra taki þátt í verndun landslagsins með beit. Hin mikla niðursveifla í búskap síðustu fimmtíu árin hefur leitt til þess að landið er yfirgróið. Þeir sem rækta villisauði benda sérstaklega á að með því að beita kindunum á lyng, blómjurtir, gras, eini, runna og kjarr geti þeir komið í veg fyrir að lyngheiðarnar meðfram ströndum Noregs verði yfirgrónar eins og gerst hefur sunnar í Evrópu.
Lambakjötið var notað þegar fólk gerði sér glaðan dag á hátíðs- og tyllidögum en það var góð tilbreyting frá hversdagsmataræði þar sem fiskur var allsráðandi. Þurrkað saltkjöt, lambarúllur og kjöt í káli eru hefðbundnir réttir í Nordland. Lamba- og laxahátíðin í Hadsel í Vesterål hefur því slagorðið: Bragðið af Vesterål.