The museums
- Minjasafn Austurlands
- Donegal County Museum
- Museum Nord
Share / Add

HIN HEILAGA ROLLA!
Íslensku kindinni hefur verið þakkað það að þjóðin lifði af í gegnum aldirnar við harðneskjuleg kjör og óblítt veðurfar. Hún skipar því veigamikinn sess í íslenskri þjóðarsál. Sú staðreynd að hún hafi átt verulegan þátt í hinni miklu gróður- og jarðvegseyðingu hér á landi er jafnvel mótmælt en ljóst er að ofbeit á þar stóran hlut að máli. Orðið ,,rolla” finnst sumum mjög niðrandi og tungumálið er sneisafullt af orðum og orðtökum sem vísa til kindarinn og ekki síður verka er tengjast sauðfjárrækt.
Afurðum hennar er hampað mjög, enn þann dag í dag. Íslenska lambakjötið er það besta í heiminum og ekki þykir ullin síðri. Kindin er hluti af stoltri sjálfsmynd Íslendinga og við landkynningu er hún tengd við hreina náttúru, eljusemi og þrautseigju, sérstaklega þegar verið er að selja afurðir hennar.
Minjagripir eru einnig skemmtilegt rannsóknarefni því að þeir gegna hlutverki táknmyndar fyrir það svæði eða land sem ferðamaðurinn dvelur í. Bæði eiga þeir að ,,sanna” að viðkomandi hafi heimsótt staðinn en einnig sýna þeir hvað við, sem heimamenn, viljum selja sem okkar einkenni, það íslenskasta af öllu íslensku. Munir sem sækja innblástur sinn frá kindum og ull eru stór hluti af íslenskum minjagripum, bæði fjöldaframleiddum og gerðum af handverks- og listafólki. Þau sækja oft í gamlan arf en útfærslur eru í takt við ríkjandi strauma. Á sýningunni reyndum við að leitast við að safna sýnishornum af handverki og minjagripum er sýna þetta glögglega.
ÍSLENSKA LOPAPEYSAN
Íslensku lopapeysuna í hinni hefðbundnu mynd þarf vart að kynna, svo inngróin er hún í sálarlíf þjóðarinnar. Merkilegt er að hún er rétt tæplega sextíu ára gömul, margir telja hana mun eldri.
Erlendur fatnaður og peysumunstur bárust til landsins í síauknum mæli í byrjun 20. aldarinnar. Þegar seinni heimsstyrjöldin gekk yfir var lítið um annað garn en lopa og þá voru uppskriftir oft aðlagaðar honum. Hefðbundnar norskar peysur með beinum axlabekkjum sem og önnur munstur voru nokkuð algeng. Það var ekki fyrr en á 6. áratugnum að peysur með hringlaga axlabekkjum fara að skjóta upp kollinu. Þær voru líklegast byggðar á erlendri fyrirmynd en lopi var notaður í stað annars garns. Hvaðan hið hringlaga munstur kom er ekki vitað – það hefur bæði verið rakið til Svíþjóðar og Grænlands og jafnvel Tyrklands.
Lopapeysan íslenska eins og við þekkjum hana í dag varð fljótt mjög vinsæl. Hún stimplaði sig rækilega inn og hefur á sinni stuttu ævi orðið, í hugum margra, tákngervingur fyrir íslenskan klæðnað bæði nú og fyrr á tímum. Hvers vegna hún öðlaðist þennan sess væri áhugavert að skoða betur og greina.