The museums
- Minjasafn Austurlands
- Donegal County Museum
- Museum Nord
Share / Add

Þjóðerniskennd, byggðakennd og tákn
Í Noregi eru það elgurinn og ísbjörninn frekar en sauðkindin sem eru ráðandi tákn þegar landið er kynnt ferðamönnum. Ullarflíkur hafa þó oft þjóðernislega merkingu eða eru tengdar ákveðnum byggðarlögum. Á seinni hluta 19. aldar, og sér í lagi eftir að bandalagið við Svíþjóð var leyst upp árið 1905, var þjóðaruppbygging allsráðandi í norskri menningu. Það átti líka við um hina norsku handverkshreyfingu sem vildi varðveita og koma áleiðis hinu góða handverki bændasamfélagsins. Auk þess áttu afurðirnar að endurspegla kjarna þess að vera norskur. Nýir þjóðbúningar voru hannaðir upp úr hefðbundnum alþýðuklæðnaði og sparibúningum. Fljótlega urðu þessir búningar einnig tákn fyrir mismunandi landsvæði og á stöðum þar sem ekki var til staðar sérstök búningahefð, var reynt að koma á eða skapa nýja hefð með gerð nýrra búninga sem hver tengdist sínu landsvæði. Oftast voru búningarnir saumaðir úr sterklegu mjúku ullarefni og gjarnan skreyttir með litríkum ullarútsaumi. Slíkir búningar voru hannaðir í gegnum alla 20. öldina. Á okkar svæði er það Nordlandsbúningurinn, Lofotbúningurinn og Ofotbúningurinn sem helst eru notaðir, en þeir voru hannaðir 1924-28, 1948 og 1989. Ólíkt flestum öðrum löndum er þessi nýlegi svæðisbundni spariklæðnaður mikið notaður og ekki aðeins í þjóðfræðilegu umhverfi eða þjóðdansahópum. Í barnaskrúðgöngunum á 17. maí, þjóðhátíðardegi Norðmanna, má sjá fjölda búninga sem sýna vel fjölbreytnina í þessum litríku þjóðbúningum. Einnig eru þeir mikið notaðir á merkisdögum á lífsleiðinni, svo sem við skírnir, fermingar, brúðkaup og útskriftir.
Önnur handverksgrein, sem er tryggilega tengd þjóðerniskennd Norðmanna, er prjónaskapurinn. Prjónaflíkur úr ullargarni, í tveimur eða fleiri litum, eiga sér hefð allt aftur til 1850 og gjarnan er litið á mynstraðar peysur eða treyjur sem norskar, sérstaklega ef þær hafa „lús“ – einlita fleti með deplum í áberandi ólíkum lit – og kant með áttablaðarósum. Flestar af þessum „norsku“ prjónaflíkum komu fyrst fram á 20. öldinni og til eru mörg staðbundin og svæðisbundin afbrigði. Frá okkar svæði er m.a. Nordlandskofta sem, þrátt fyrir að hafa verið hönnuð af konu frá Suðvestur-Noregi á fimmta áratugnum og að hafa kanta í grískum stíl, er mörgum íbúum Nordlands mikilvægt tákn fyrir menningu og sjálfsímynd Nordlands.
Mikilvæg hetja frá Norður-Noregi er skáldið Petter Dass (1646-1707). Sagan segir að þegar hann dó syrgði fólk hann svo mikið að sjómenn settu svarta bletti í seglin sín sem tákn um sorg sína. Þetta er víst frekar ótrúlegt en á fjórða áratugnum fannst vettlingur með svarta totu sem var kallaður Petter Dass-vettlingurinn. Þegar tákn frá Norður-Noregi urðu aftur vinsæl í prjónaflíkum á níunda áratugnum fékk Petter Dass einnig sitt tákn prjónað í peysur. Þá fengu líka fleiri samfélög út um land, þar með talið á okkar svæði, „sínar“ peysur.
Sögur um norsku ullarfötin eru nátengdar þeirri goðsögn að Norðmenn séu fæddir með skíði á fótunum. Norsk marglit prjónamynstur eru mikið notuð þegar norskir skíðahlauparar taka þátt í Evrópu- og heimsmeistaramótum, og voru ekki síður vinsæl þegar Noregur hélt vetrarólympíuleikana árið 1952 og aftur 1994. Garnverksmiðjur nýta sér þetta óspart í markaðssetningu sinni.
Prjónaskapur tengist einnig ákveðinni kvenímynd þar sem prjónakonan er vinnusöm móðir, amma, systir eða dóttir sem vinnur af umhyggju og hlýju í garð fjölskyldu sinnar. Það er varla tilviljun að á sjötta og sjöunda áratugnum, sem voru áratugir húsmæðranna í norskri sögu, sýndu bekkjarmyndir að flest ungmenni gengu í heimaprjónuðum norskum peysum og treyjum. Prjónarnir voru aldrei langt undan húsmæðrum á þeim tíma.
Norðmenn eru stoltir af prjónahefðum sínum og þær eru notaðar til hins ýtrasta í minjagripaframleiðslu, en einnig sem grunnur fyrir nútímahönnun.