The museums
- Minjasafn Austurlands
- Donegal County Museum
- Museum Nord
Share / Add

Uppruni og kynstofnar
Sauðkindur eru algeng sjón í landslagi Donegal. Sýslan er strjálbýl og landslagið hæðótt og fjöllótt svo það er ákjósanlegt umhverfi fyrir sauðkindabeit.
Mjög fáir af þeim kynstofnum, sem til eru á Írlandi í dag, eru upprunnir þar. Þeir stofnar, sem helst finnast í Donegal, eru Cheviot og skosku svarthöfðafjallasauðirnir. Galway- og Soay-kynstofnarnir eru einnig ræktaðir á svæðinu en aðeins í smáum stíl. Á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar byggðist það á ullargæðum og efnahagslegum þrýstingi frá ullarmarkaðnum hvaða kynstofnar lifðu af í Donegal. Í dag er mest af ullinni innflutt og því er sauðféð aðallega ræktað vegna kjötsins.
Ullin á Cheviot-kindunum er aðallega notuð í gróf ullarefni. Þetta kyn er upprunnið í Englandi og var flutt inn til Írlands í stórum stíl um aldamótin 1900 til að betrumbæta og, með tímanum, leysa af hólmi innlendu stofnana. Cheviot-kindurnar þola vel vindasamt veðurfar og ullin er mjúk og hægt að klæðast henni næst sér án óþæginda. Höfuð þeirra eru ullarlaus og fæturnir svartir.
Hið skoska svarthöfðafjallakyn var komið til Írlands um miðja 19. öld. Þessar smáhyrndu kindur eru með meðallanga, örlítið stökka ull sem hentar betur í gólfteppi en föt.
Sauðkindur af Galway-kyninu hafa mikla gæðaull sem er mjúk, hvít og þægileg að vera í næst sér. Soay-kynið er nokkuð frumstætt með þykk horn og ljósbrúnt reyfi sem kindurnar fella árlega. Ull Soay-sauðkinda er mestöll mjúk en getur einnig haft einstöku gróf hár sem verja mjúku ullina fyrir óhreinindum og vatni.
Mikilvægi ullariðnaðarins fyrir Donegal
Vegna þess hve Vestur-Donegal er einangrað og dreifbýlt svæði voru ullarvörur að mestu leyti framleiddar inni á heimilum þar til snemma á 20 öld. Vörur eins og föt og gólfteppi voru framleiddar um allt héraðið en aðallega til heimanota.
Ullin var einnig kembd heima við og spunnið garn en til þess var notaður Donegal-rokkurinn sem var betrumbætt útgáfa af hinum hollenska hörrokki. Auk þess var prjónað inni á heimilum en vefnaður var í höndum ákveðinna vefara á hverjum stað. Handvefstóllinn var algengur fram undir lok 19. aldar en eftir það varð skyttuvefstóllinn vinsælli. Sokkar, peysur, húfur og teppi voru helstu ullarvörurnar, þar sem lífsbaráttan var oft hörð og heimamenn gátu aðeins framleitt nóg fyrir sjálfa sig. Útflutningur var nánast enginn.
Árið 1891 settu bresk yfirvöld ný byggðalög og í kjölfar þeirra var sett á fót nefnd (Congested Districts Board) sem hafði það að markmiði að efla atvinnustarfsemi heima í héraði með því að hvetja til stórfelldrar framleiðslu matar og vefnaðarvöru á Vestur-Írlandi. Nefndin sá undir eins að ullarvörur, sem voru spunnar og ofnar í Donegal, voru af miklum gæðum. Hún bauð mjög velmegandi skoskum fjöldaframleiðanda, Alexander Morton, til Donegal með það fyrir augum að hann myndi síðar opna verksmiðju þar. Morton taldi að handofin gæðagólfteppi gætu reynst arðsamur iðnaður og árið 1898 setti hann upp fyrstu handvefstofuna í Killybeg (Suðvestur-Donegal).
Árið 1904 voru verksmiðjur Mortons orðnar fjórar og árið 1906 voru starfsmennirnir orðnir 600 talsins. Auk þess að skapa störf við vefnað, styrkti iðnaðurinn sauðfjárrúningu á svæðinu, sem var vel þegið. Viðskiptin gengu sífellt betur og um 1950 var fyrirtækið, sem reyndar hafði skipt um eigendur, þekkt um allan heim fyrir vörugæði. Önnur fyrirtæki, svo sem Magees, Molloys og Connemara Fabrics, stofnuðu verksmiðjur, sem framleiddu gróft ullarefni, og í kjölfarið gekk ullariðnaðurinn í Donegal í gegnum víðtæka endurnýjun lífdaga.
Í dag er ullariðnaðurinn ekki efnahagslega mikilvægur fyrir Donegal en þegar kemur að ferðamannaþjónustu og sögulegri arfleifð er hann mjög mikilvægur því hann á upphaf sitt í vandaðri verkkunnáttu heimamanna sem hefur fengið að þróast og vaxa í meira en 200 ár.
Sauðkindurnar og efnahagurinn
Ullariðnaðurinn óx geipilega á Írlandi um miðja 17. öld, dalaði á þeirri 18. og staðnaði svo á fyrri hluta 19. aldar. Meginorsakirnar voru vöxtur líniðnaðarins sem og minnkandi útflutningur til Englands eftir langvinn mótmæli enskra ullarframleiðenda.
Í dag miðar sauðkindabúskapur að mestu leyti, að því að framleiða kjöt og mestur hluti ullarinnar er fluttur úr landi. Fjöldi sauðkinda á Írlandi er í dag um 3,5 milljónir.
Pólitísk áhrif sauðkindarinnar: Sauðastríðið í Gweedore
Á 18. öld var mest allt ræktað land á Írlandi í eigu landeigenda sem sköpuðu sér tekjur með því að leigja landspildur til heimamanna. Eftir hungursneyðina miklu (1845-1849) varð mikið tap hjá landeigendum sem hvatti þá til að hækka leigu og framfærslukostnað hjá leiguliðunum. Þetta olli miklum titringi.
Árið 1855 höfðu sumir landeigendur í Donegal ráðstafað stórum afgirtum svæðum til enskra og skoskra bænda sem ætluðu að hafa þar mikinn fjölda sauðkinda á beit. Á þessum tíma var einmitt verið að kynna skoska svarthöfðasauðakynið fyrir Írum. Heimamenn, sem áður höfðu notað spildur sem nú voru innan þessara stóru lokuðu svæða, voru annaðhvort neyddir til að flytja eða bornir út. Heimamenn voru sektaðir ef kindurnar þeirra fundust á beit inni á þessum stóru svæðum. Smábændur urðu fyrir miklum skaða þegar þeir misstu beitilandið.
Sauðastríðið í Gweedore hófst í desember 1856 þegar um það bil fjörutíu heimamenn gerðu atlögu að húsi skosks sauðahirðis og skipuðu honum að yfirgefa sýsluna innan átta daga. Áhlaup á stóru sauðalendurnar fylgdu. Í ágúst 1856 hafði verið tilkynnt um næstum 1.000 týndar eða dauðar svarthöfðakindur á Gweedore-svæðinu.
Deilunum, sem risu í kjölfarið, var lýst í fjölmiðlum á öllu Írlandi, í Bretlandi og jafnvel í Bandaríkjunum. Mál vegna tapaðra sauðkinda voru rannsökuð af hörku og í sumum tilvikum var skuldinni skellt á fjárhirðana og tapið sagt annars vegar stafa af vanrækslu þeirra og hins vegar af hinu harða umhverfi sem skoska svarthöfðaféð hafði verið flutt í. Löggæsla var aukin á svæðinu og var fjölgun lögreglumanna mætt með því að leggja skatt á heimamenn, sem var kallaður „lögregluskattur". Seint á árinu 1857 voru fjölmargir teknir fastir en skattar og viðbúnaður lögreglu hafði tekið sinn toll af íbúum á svæðinu. Sumarið 1858 var sauðastríðinu í Gweedore raunverulega lokið.
Gweedore var ekki eina svæðið sem mátti þola að myndaðar væru stórar beitilendur fyrir innflutt fé. Árið 1861 lét John George Adair lávarður bera yfir 250 manns út á Derryveagh-svæðinu til að stofna þar stór beitisvæði fyrir innfluttar skoskar sauðkindur. Afleiðingarnar af þessum fjöldaútburði í Derryveagh eru sýnilegar enn í dag þar sem svæðið er nú að miklu leyti í eyði og er orðið hluti af Glenveagh-þjóðgarðinum.