The museums
- Minjasafn Austurlands
- Donegal County Museum
- Museum Nord
Share / Add

Sauðkindin hefur verið sérstök tegund í meira en 2,5 milljónir ára. Hún er af ættbálki slíðurhyrninga (sem er undirflokkur jórturdýra) líkt og geitur, antílópur, buffalar og nautgripir. Líkt og flest önnur húsdýr er sauðkindin tamin í allt öðrum heimshluta og flutt til Noregs seinna. Villisauðir og geitur eru ekki hluti af hinu náttúrulega dýraríki Vestur-Evrópu en sum önnur húsdýr hafa lifað í Evrópu í langan tíma sem og skyld dýr eins og úruxinn sem varð útdauður á 17. öld.
Villisauðir
Til eru margar gerðir af villtu sauðfé, um það bil 40 mismunandi tegundir eru þekktar. Áhugaverðast fyrir okkur er sauðfé frá svæðinu norðan og austan við Palestínu (Tyrklandi, Íran). Þar eru líka afkastamikil rándýr sem veiða villisauði, eins og til dæmis úlfar og hlébarðar. Þetta hefur leitt til þess að sauðkindur eru skarpeygar og varar um sig.
Villisauðir halda sig í hjörðum og það er skynsamleg leið til að komast hjá því að vera étnir einn af öðrum. Ef sauðahópurinn nær ekki að flýja myndar hann hring, sem stundum er kenndur við náinn ættingja sauðkindarinnar, moskusnautið, einnig nefnt sauðnaut. Í moskushringnum eru fullorðnu dýrin yst en þau ungu standa varin í miðjunni. Bæði ær og hrútar villisauða hafa horn sem þau verja sig með.
Samt sem áður heldur villisauðféð sig helst á víðum sléttum þar sem hin frábæru augu þeirra fá notið sín. Sauðkindur geta séð 300 gráður í kringum sig og tekið eftir rándýrum í kílómetra fjarlægð en það er nokkuð sem við mennirnir þyrftum kíki með áttfalda stækkun til að leika eftir. Úti í náttúrunni eru sauðkindurnar með frekar stutt hár, álíka og rádýr, og þær eru í felulitum, moldarbrúnar eða rauðbrúnar. Auk þess hafa þær allar stuttan hala sem kallaður er dindill.
Sauðfé hefur einnig annan líkamlegan útbúnað sem gerir það betur í stakk búið til að sleppa frá rándýrum. Það hefur „kalt nef" eða „rete mirabile", þ.e.a.s. tvöfalt æðanet í snoppunni til að halda höfðinu köldu. Þetta frumlíkan að kælikerfi sér til þess að heita blóðið úr kroppnum kólnar fyrir áhrif frá kalda blóðinu í snoppunni (vegna uppgufunar) áður en það nær til heilans. Þetta kemur í veg fyrir ofhitnun og að dýrið þurfi að stoppa á flóttanum. Kalt nef er að finna hjá fleiri dýrum, til dæmis hreindýrum.
Tamið sauðfé
Fyrstu merki um bændur er að finna í frjósama hálfmánanum (frá Vestur-Íran til Austur-Tyrklands) en þar voru flest húsdýr (og ákveðnar plöntur) tamin í fyrsta sinn fyrir meira en 10.000 árum síðan. Í hinum frjósama hálfmána er aðeins ein villt sauðkindaætt og það er hin austurlenska múfflon. Genarannsóknir sýna einnig að múfflónsauðurinn hefur jafnmarga litninga og allar tamdar sauðfjárættir (54) og er því líklegast forfaðir þeirra. Síðan hefur sauðkindin breiðst út m.a. með bátum norðvestur til Evrópu og strax fyrir 8000 árum síðan var tamið sauðfé í Grikklandi og á eyjunum fyrir utan Ítalíu (Sikiley, Sardiníu, Korsíku).
Tamið sauðfé, sem strauk frá íbúum þessara eyja síðar, varð upphafið að villtri sauðategund sem á tungumáli Korsíkubúa kallast musimom. Síðar var sauðkindin flutt til Bretlands og eyjanna þar í kring sem og til Noregs í gegnum Danmörku eða Skán. Elstu merki um sauðfé í Noregi fundust við uppgröft af Skipsheller í Hörðalandi og eru þau 4000 ára gömul.
Tamning húsdýra
Til að hægt sé að temja dýr má það ekki hafa sterka þörf fyrir að helga sér svæði eins og til dæmis antílópur, gasellur og rádýr. Þegar dýrategund er tamin eru valin til undaneldis þeir einstaklingar, sem hafa þá eiginleika sem óskað er eftir, fyrst og fremst gott skapferli, og svo er óæskilegu dýrunum slátrað og þau borðuð.
Að auki eru valin þau dýr sem gefa af sér góðar framleiðsluvörur, svo sem kjöt og ull og því um líkt. Á mismunandi menningarsvæðum og í hinu ólíka umhverfi á jarðarkringlunni er þörf fyrir sauðkindur með mismunandi eiginleika. Þetta hefur orðið til þess að það hafa verið ræktaðar fram allmargar gerðir af sauðfé sem kallast kynstofnar og í heiminum öllum er svimandi fjöldi kynstofna (>1000). Einstaklingar af sama kynstofni þurfa að eiga þónokkra eiginleika sameiginlega sem eru ólíkir öðrum kynstofnum. Dæmi um þetta er fituhalasauðurinn í Mið-Austurlöndum og Tyrklandi. Hann safnar fitunni í halann, svipað og kameldýrið safnar fitu í hnúðana á bakinu. Í sumum löndum er sauðamjólk mikilvæg vara, til dæmis eru 20% allra sauða í Frakklandi mjólkaðir. Úr sauðamjólkinni er búin til m.a. jógúrt og ostur (t.d. Roquefort). Sauðablóð og sauðamjólk hafa alltaf verið mikilvægar vörur. Áður fyrr var blóði tappað af sauðnum með því að stinga á hálsæð og láta blóðið renna í ílát þangað til það hætti af sjálfu sér. Það sama gera Masajarnir við nautgripi í Afríku og dýrin lifa áfram í við hestaheilsu.
Sauðahald er mismunandi eftir löndum og hefur einnig breyst í tímans rás. Í Noregi er sauðféð sent á beit í úthaga án yfirsetu. Þetta hefur á einstaka stöðum leitt til stórfells taps, að hluta til vegna rándýra, þar sem sauðféð hefur verið ræktað upp til að vera húsdýr og hefur minni hæfni til að vera á beit í óbyggðum. Í öðrum löndum eru kindurnar á beit á ræktuðu landi og þar eru sauðkindur miklu þyngri, eins og til dæmis hollenski kynþátturinn teksel eða hið enska Oxford down. Í flestum löndum er setið yfir fénu og það gera oft börn eða unglingar með prik í hendi. Á einstaka svæðum flytja menn sig um set með sauðféð eftir því sem grasið er étið upp, þ.e.a.s. fólk lifir sem (sauða)hirðingjar. Ísland, Írland og Noregur eiga ýmislegt sameiginlegt í því hvernig sauðahald hefur þróast en annað er ólíkt.